Í þessum þætti er metið hvers konar og hversu mikillar þekkingar og reynslu er krafist í starfi. Með þekkingu er átt við alla þá þekkingu sem starf gerir kröfur um til starfsmanns og getur þekkingin falist í starfs- eða stjórnunarreynslu, námskeiðum, styttri námsbrautum eða formlegu námi. Auk þess er metið hvort starfið krefst þess að starfsmaður hafi þekkingu á vinnureglum og starfsstað, vinnuferlum og vinnulagi, stefnu stofnunar og/eða annarra stofnana á sérfræðisviðinu.
Metin er krafa um þekkingu á hugtökum, hugmyndafræði, tungumálum, kenningum og tækni auk þekkingar á búnaði og vélum. Einnig er skoðað hvort krafist er nákvæmrar, víðtækrar eða fjölbreyttrar þekkingar og hvort starfsmaður þurfi að nýta þá þekkingu á breiðum starfsvettvangi.
Metin er öll þekking og færni sem krafist er, án tillits til þess hvort hennar er krafist í öllum verkefnum starfsins eða aðeins hluta þeirra. Sem dæmi má nefna að sú þekking á fyrstu hjálp sem krafist er af sundlaugarvörðum er metin burtséð frá því hversu oft þeir þurfa síðan að nota þá þekkingu í starfi.
Til að auðvelda matsferlið, og koma í veg fyrir að einstökum starfshlutum sé sleppt eða þeir vanmetnir, hefur þættinum verið skipt niður í nokkra aðskilda þætti. Ekki er tekið tillit til þess þó gerðar séu kröfur um líkamlega eða hugræna færni né samskipta- eða tjáskiptafærni enda fellur slíkt mat undir aðra þætti. Hafa ber eftirfarandi í huga:
Tungumálaþekking og kunnátta: Tungumálakunnátta umfram íslensku, sem krafist er vegna samskipta í starfi, er metin innan þáttar um Samskiptafærni.
Kröfur um ítarlegri þekkingu á uppbyggingu, málfræði og stafrófi annars tungumáls en íslensku til að þýða eða skrifa drög, skal hinsvegar meta innan þessa þekkingarþáttar.
Tölvuvinnsla/ritvinnsla: Þekking á hugbúnaði, tölvu- eða ritvinnslu er metin út frá þekkingu en færni í fingrasetningu og samhæfingu, sem þarf að uppfylla vegna krafna um nákvæmni og hraða í starfi, er hinsvegar metin í þætti um Líkamlega færni.
Akstursfærni: Kunnáttu á akstri eða stjórnun tiltekinna farartækja eða véla skal meta innan þessa þekkingarþáttar. Samhæfingu og næmni vegna krafna um nákvæmni og öryggi skal meta í þættinum Líkamlegar kröfur.
Ef ákveðinnar kunnáttu og færni er krafist til að geta leyst starf af hendi skal meta það sérstaklega, jafnvel þótt tiltölulega lítill hluti starfsins krefjist þessarar sértæku færni og að til hennar sé einungis gripið stöku sinnum.

